02. júlí. 2010 01:25
Víkingur Ólafsvík vann öruggan sigur á Hamri í Hveragerði sl. þriðjudagskvöld í annarri deildinni í knattspyrnu. Leikurinn fór 0-2 þrátt fyrir að Víkingar hafi verið manni færri nær allan leikinn. Fjölmenni mætti á Grýluvöll í Hveragerði. Þar á meðal var Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar en Víkingur Ó. mætir Stjörnunni í átta liða úrslitum VISA bikarsins 12. júlí næstkomandi.
Leikurinn fór vel af stað og áttu leikmenn Víkings nokkur skot á markið. Sindri Már Sigurþórsson var hins vegar kominn með tvö gul spjöld á 33. mínútu, þar með rautt og var rekinn af leikvelli. Víkingar nýttu hins vegar muninn sér í hag og nokkrum mínútum eftir brottrekstur Sindra skoraði Þorsteinn Már Ragnarsson fyrsta mark leiksins eftir sendingu frá Edin Beslija. Staðan í hálfleik 0-1.
Víkingar héldu forskoti sínu allan seinni hálfleik og þegar um tíu mínútur voru til leiksloka bætti Helgi Óttarr Hafsteinsson öðru marki við. Dómari leiksins, Hákon Þorsteinsson, sparaði ekki spjöldin í þessum leik en alls fóru á loft níu gul spjöld og eitt rautt. Víkingur Ó. heldur toppsæti sínu í annarri deildinni eftir þennan 0-2 sigur gegn Hamri.