02. júlí. 2010 03:14
Á fundi bæjarráðs Akraness í dag, föstudag, var fellt úr gildi samþykkt ráðsins frá 10. júní 2009 um algjört bann við yfirvinnu starfsmanna Akraneskaupstaðar. Bæjarráð áréttar hins vegar að forstöðumenn stofnana og ábyrgðarmenn deilda gæti þess við ákvarðanir sínar að farið verði eftir samþykktum fjárhagsáætlunar um heimildir til yfirvinnu á hverjum tíma. Á dögunum ákvað bæjarráð að lengja opnunartíma íþróttamannvirkja, sem þýðir að hjá þeim starfsmönnum bæjarins var yfirvinnubannið í raun fellt úr gildi.
Yfirvinnubannið var tengt aðhaldi í fjármálastjórnun Akraneskaupstaðar á síðasta ári. Á fundi bæjarráðs í dag var einnig samþykkt að fella úr gildi aðra samþykkt því tengt. Það er samþykkt bæjarráðs frá 22. maí 2009. Þar var kveðið á um að samþykki fjármálastjóra þyrfti til við afgreiðslu reikninga til greiðslu hjá Akraneskaupstað. Fram kom á fundi bæjarráðs í dag að rekstrarstaða Akraneskaupstaðar sé í samræmi við fjárhagsáætlun en gengisþróun skapi hagstæðari niðurstöðu fjármunagjalda en áætlunin gerði ráð fyrir.