05. júlí. 2010 08:01
Félag skógarbænda á Vesturlandi verður gestgjafi á ársfundi Landssambands skógareigenda sem haldinn verður í Reykholti 8.-10. október í haust. Gestum á fundinum verða afhentir göngustafir úr skógarafurðum og verða 80-100 slíkir stafir smíðaðir af félagsmönnum hér á Vesturlandi. Frjálst val er um aðferð og viðartegund sem notuð verður og áhersla lögð á að hver og einn geri stafi með sínum hætti og með mismunandi útliti. Miðvikudaginn 7. júlí nk klukkan 17 ætla félagsmenn að koma saman til stafagerðar í Belgsholti í Melasveit. Þar er alaskavíðir í boði en einnig getur fólk mætt með aðrar viðartegundir. Á meðfylgjandi mynd er Þórhallur bóndi á Hlíðarenda í Dölum með göngustafi sem hann gerði úr 7-8 ára gömlum alaskavíði.