05. júlí. 2010 09:01
Farandsýningin Tilraunalandið verður hjá Grunnskólanum við Borgarbraut í Stykkishólmi á morgun, þriðjudaginn 6. júlí frá kl. 10-17. Sýningin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Norræna hússins. Þetta er lifandi og gagnvirk sýning þar sem vísindin eru kynnt á óvenjulegan og skemmtilegan hátt með virkri þátttöku gesta. Meðal tilrauna og tækja sem gestir kynnast eru Sápukúluborðið, Vatnshrútur, Sólarofninn, Kúlubekkurinn, Brunnurinn skjálfandi, Ölduvaggan, risahúsgögn, loftpúðaborð, strimlaspegill, hvirfilflöskur og orkuhjól. Í Tilraunalandinu eru líka magnaðar sýnitilraunir eins og Eldorgelið og Teiknirólan Róló Pendúla. Flest tæki og tilraunir sýningarinnar höfða til allra aldurshópa en megin markhópurinn er 7-17 ára.
“Tilraunalandið sýnir náttúruvísindin í nýju samhengi, á skemmtilegan og fjörugan hátt með áherslu á gagnvirkni og upplifun allra skilningarvita. Í Tilraunalandinu eru allir jafnir, það þarf ekki að “kunna” neitt sérstakt til að taka þátt en hinsvegar er mikilvægt að hafa fróðleiksþorstann, hugrekkið og ímyndunaraflið með í farteskinu,” eins og segir í tilkynningu.