05. júlí. 2010 03:02
Skallagrímsmenn féllu á ný niður í þriðja sæti C-riðils 3. deildar Íslandsmótsins þegar þeir gerðu 2:2 jafntefli við Ými í Kópavogi sl. föstudagskvöld. Skallagrímur var lengst af betra liðið í leiknum og Borgnesingar skoruðu bæði mörkin á fyrsta fjórðungi leiksins. Sölvi Gylfason var á ferðinni í bæði skiptin, skoraði á 13. og 24. mínútu. Ýmismenn sóttu í sig veðrið þegar leið á leikinn og þeim tókst síðan að jafna með því að skora tvívegis á síðustu 20 mínútum leiksins. Skallagrímur er nú með 11 stig í riðlinum þegar sex leikjum er lokið af 18. KB er þar fyrir ofan með 12 stig og Tindastólsmenn efstir með 15 stig.