06. júlí. 2010 10:14
Skemmtiferðaskipið Saga Pearl II átti viðkomu í Grundarfirði sl. sunnudag. Skipið kom að bryggju klukkan átta um morguninn en þetta er í fyrsta skipti sem þetta skip kemur til Grundarfjarðar. Um borð voru 400 Bretar, flest eldra fólk. 170 farþegar fóru með rútum í skoðunarferð um Snæfellsnes, aðrir gengu umhverfis Kirkjufellið og enn aðrir völdu að fara í siglingu með Sæferðum í Stykkishólmi. Níu fulltrúum ferðamála í Grundarfirði var boðið til veislu í skipinu, en það sigldi síðan frá Grundarfirði undir kvöld áleiðis til Reykjavíkur.