06. júlí. 2010 11:28
Eldur kviknaði í gömlu beinaverksmiðjunni við höfnina í Grundarfirði í gærkvöldi. Ekki urðu miklar skemmdir og greiðlega gekk að slökkva eldinn. Húsnæðið stendur nánast tómt en það logaði í nokkrum plaströrum sem voru þar geymd. Lítill eldur var en samkvæmt Valgeiri Þór Magnússyni slökkviliðsstjóra í Grundarfirði logar ekki svo glatt í plasti. Mikill reykur hlaust hins vegar af eldinum. Reykkafarar slökkviliðsins fóru inn í húsið og tók slökkvistarf skamma stund.