09. júlí. 2010 10:04
Sýning á verkum Helgu Sigurðardóttur listakonu verður opnuð á morgun, laugardaginn 10. júlí klukkan 12 í nýju kaffihúsi í safnaðarheimilinu Skemmunni á Hvanneyri. Skemman er í elsta húsi á Hvanneyri reistu 1896. Sýnd verða valin verk úr smiðju Helgu og nefnist sýningin List sálarinnar. Þema sýningarinnar er innri víddir náttúru og manns og eru verkin unnin með pastel á velour. Flest verkin á sýningunni verða til sölu og eins verða eftirprentanir úr álfa- og ljósberaseríum Helgu fáanlegar. “List Helgu lýtur að innri upplifun mannsins, skynjun andartaksins og tengingu hans við kjarnann sinn, sálina, æðra Sjálfið og einingarvitundina,” segir í tilkynningu. Helga hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í fjölbreyttum samsýningum. Á sumarsólstöðum opnaði hún vefsíðuna http://www.artofthesoul.is/ þar sem hægt er að skoða verk frá 1986 til dagsins í dag. Sýningin List sálarinnar á Hvanneyri verður opin fram eftir sumri og eru allir velkomnir.