13. júlí. 2010 07:01
„Þetta er skemmtilegt og hvatning fyrir okkur,“ segir Álfgeir Marinósson forstöðumaður hvítasunnusafnaðarins í Stykkishólmi, en ákveðið hefur verið að árlegt mót hvítasunnumanna um verslunarmannahelgina verði haldið í Stykkishólmi í stað Kirkjulækjarkots í Fljótshlíð. Ástæða þess að mótið er flutt í Hólminn er öskumengun í Fljótshlíðinni. Gert er ráð fyrir að mótið verði einungis þetta eina ár í Hólminum en svo verði aftur farið með það í Fljótshlíðina. Hvítasunnumenn hafa haldið árleg sumarmót í Kirkjulækjarkoti í sex áratugi en fyrsta mótið var haldið 1950. Um 4000 manns mæta á hátíðina ár hvert. Álfgeir segir ljóst að söfnuðurinn í Stykkishólmi muni að einhverju leyti taka þátt í undirbúningi mótsins, þótt hann muni að megninu til hvíla á stjórn aðalsafnaðarins í Reykjavík.
„Þetta verður svona úti- og innihátíð og eina útihátíðin sem ég hef haft spurnir af hérna á Snæfellsnesi um verslunarmannahelgina. Það eru allir velkomnir að fylgjast með mótinu, fólk þarf ekki að vera í söfnuðinum til þess,“ segir Álfgeir. Hátíð hvítasunnumanna hefst á fimmtudagskvöld og stendur fram á mánudag. Mikið verður um lifandi tónlistarviðburði á mótinu og dagskrá bæði fyrir, börn, unglinga og fullorðna. Á laugardeginum verður til dæmis blásið til karnivalhátíðar á mótinu í Stykkishólmi, sem að sjálfsögðu er bindindismót.