15. júlí. 2010 10:01
Heilbrigðistofnun Vestulands (HVE) hefur gert samkomulag við Framfarafélag Flateyjar á Breiðafirði um að stofnunin muni koma að endurnýjun búnaðar vegna bráðaveikinda og slysa í Flatey í samstarfi við Framfarafélagið. Í samkomulaginu, sem tók gildi 1. júlí sl., felst meðal annars að HVE mun sjá um endurnýjun og viðhald þess búnaðar sem fyrir er í eyjunni. Þá mun stofnunin sjá um endurnýjun lyfja í lyfjakistu sem staðsett er í eyjunni. Valdir félagsmenn í Framfarafélagi Flateyjar verða í vettvangshjálparliði (first responder) fyrir Flatey og munu starfa á sjálfboðaliðagrundvelli. Sambærilegt samkomulag var fyrir skömmu gert í Húsafelli í Borgarfirði á þeim forsendum að viðbragðstími sjúkraflutninga getur verið hálf klukkustund eða meira þegar slys eða bráðaveikindi verða. HVE mun nú koma að þjálfun vettvangshjálparliða í Flatey líkt og í Húsafelli.