15. júlí. 2010 08:01
Locatify Iceland er heiti á nýju íslensku forriti fyrir ferðamenn. Það er nú komið í sölu í netverslun Apple og er gert fyrir iPhone og iPod Touch tæki. Býður það upp á sjálfvirka leiðsögn í Snjallsíma. Um er að ræða nýjung fyrir ferðamenn sem vilja ferðast um á eigin vegum. Þeir fá þá leiðsögn sögumanns sem fer með þá í tilbúna leiðangra. Leiðsögnin er sótt yfir netið og höluð beint í símann. Síðan er hægt að njóta ferðarinnar án nettengingar með sögumanninn (SmartGuide) í símanum. Leiðangrar eru í boði þar sem ferðmenn geta á eigin vegum kannað landið og hlustað á sögur úr umhverfinu undir leiðsögn leiðsögumanna og leikara. Staðsetning (GPS) kemur af stað frásögnum á viðeigandi stöðum. Sérhönnuð sögukort fylgja hverri ferð ásamt ljósmyndum sem birtast á skjánum. Einnig er aðgangur að Google Maps kortum með öllum leiðöngrunum. Í þessari fyrstu útgáfu er boðið upp á sex ferðir á Suðvesturhorni Íslands á allt að sex tungumálum en leiðangrar hafa verið unnir á átta tungumálum.
Styttri og lengri ferðir eru í boði um Gullna hringinn, Reykjavík, Hafnarfjörð og Borgarfjörð, þar sem áhersla er lögð á sérkenni hvers staðar fyrir sig. Víkingaarfleiðin er þar meðal annars kynnt í samstarfi við Landnámssetið í Borgarnesi.
Nánari upplýsingar fást á vef Locatify www.locatify.com