18. júlí. 2010 12:01
Víkingar héldu stöðu sinni á toppi 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu með því að gera 1:1 jafntefli við BÍ/Bolungarvík þegar liðin mættust á Ólafsvíkurvelli sl. fimmtudagskvöld. Víkingar eru með 27 stig þegar keppnin er hálfnuð í 2. deildinni og BÍ/Bolungarvík kemur næst með 23 stig. Bikarslagurinn langi og strangi við Stjörnuna í vikunni virtist sitja í Víkingunum sem voru orðnir örþreyttir undir lokin gegn Vestfirðingunum. Verður ekki annað sagt en að það hafi verið góð frammistaða hjá þeim að ná stigi úr leiknum, sem þótti raunar ekki mikil skemmtun fyrir áhorfendur.
Fátt markvert gerðist fyrr en á 31. mínútu þegar fyrrum Víkingurinn í liði BÍ/B Dalibor Nedic braut á Edin Beslija rétt utan vítateigs gestanna. Edin tók spyrnuna sjálfur og læddi boltanum á Tomasz Luba sem var einn á auðum sjó og setti boltann snyrtilega í markið. Vestfirðingarnir náðu síðan að jafna á sjöttu mínútu seinni hálfleiks. Þá mistóks varnarmönnum Víkings í tvígang að brjóta sókn gestanna á bak aftur. Að lokum barst boltinn til Gunnars Elíassonar bæjarstjórasonarins í Bolungarvík sem var einn á auðum sjó og afgreiddi boltann snyrtilega framhjá Einari markmanni Víkings. Þar við sat og skiptust liðin á jöfnum hlut, hvorugt virtust taka áhættuna á því að blása til verulegra sókna.