19. júlí. 2010 03:05
Borgnesingar eru búnir að eignast efnilegan golfsnilling í Bjarka Péturssyni sem um helgina varð Íslandsmeistari í piltaflokki 15-16 ára, á unglingameistaramótinu í höggleik sem fram fór í Vestmannaeyjum. Bjarki hélt síðan á mánudag ásamt íslenska ungmennalandsliðinu til Ungverjalands þar sem það mun leika á European Young Masters mótinu sem haldið verður á Royal Balaton vellinum dagana 22.-24. júlí. Bjarki sigraði í Eyjum á 215 höggum. Næstur kom heimamaðurinn Hallgrímur Júlíusson á 217 höggum og í þriðja sæti var Ragnar Már Garðarsson GKG á 220 höggum. Ragnar Már fór ásamt Bjarka til Ungverjalands og einnig þær Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK og Sunna Víðisdóttir GR.
Royal Balaton Golf Club er einn af nýjustu golfvöllum í Ungverjalandi byggður 2007 og er par 72. Hann er staðsettur við norðurenda Balatons vatnsins sem er eitt stærsta stöðuvatn í Mið-Evrópu. Völlurinn er lagður í bröttum hlíðum fyrir ofan vatnið og er 60 metra hæðarmunur milli hæðstu og neðstu brautar. Netmiðillinn kylfingur.is segir að mótið í Ungverjalandi sé tvíþætt, annars vegar einstaklingsmót höggleikur 54 holur og síðan landamót. Tvær stelpur og tveir strákar skipa lið þar sem þrjú af fjórum skorum telja hvern dag, þannig að níu skor telja hjá hverri þjóð.