21. júlí. 2010 08:01
Núna um hábjargræðistímann ganga íbúar Reykhólahrepps til sveitarstjórnarkosninga nk. laugardag 24. júlí, í annað skiptið á þessu sumri. Kosningarnar 29. maí sl. voru sem kunnugt er dæmdar ógildar. Kjördeild verður á skrifstofu Reykhólahrepps, Maríutröð 5a á Reykhólum. Hefst kjörfundur kl. 09:00 og lýkur kl. 18:00. Kosningar í Reykhólahreppi eru óbundnar kosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð. Allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrirfram skorast undan því. Þrír kjósendur hafa skorast undan endurkjöri, en þeir eru Egill Sigurgeirsson, Karl Kristjánsson og Rebekka Eiríksdóttir.