22. júlí. 2010 08:01
Mánudagskvöldið 26. júlí kl. 20.00 verða fluttir í Borgarneskirkju tveir síðrómantískir og litríkir píanókvintettar eftir Rússann Nikolai Medtner og austurrísk-ungverska tónskáldið Wolfgang Korngold. Sá síðarnefndi hefur oft verið nefndur faðir kvikmyndatónlistarinnar. Flytjendur verða Eygló Dóra Davíðsdóttir og Magnus Boye Hansen á fiðlur, Mischa Pfeiffer á víólu, Þorgerður Edda Hall á selló en við flygilinn situr Mathias Susaas Halvorsen. Er þetta í fyrsta sinn sem kvintettinn leikur á Íslandi en tónlistarfólkið mun einnig halda tónleika á Stokkalæk 25. júlí og í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 27. júlí. Miðar verða seldir við innganginn og er miðverð krónur 1500.