21. júlí. 2010 02:02
Ferðir um landið á ýmsum fararskjótum njóta vaxandi vinsælda. Þar með taldar ferðir á hestum, en fáir fararskjótar gefa jafn góða nálgun við náttúruna. Nokkuð margir bjóða ferðafólki upp á skipulagðar hestaferðir hér á Vesturlandi. Þeirra á meðal er Ólafur Flosason, tónlistarmaður og bóndi á Breiðabólsstað í Reykholtsdal. Hann hefur ásamt fjölskyldu sinni boðið upp á ferðir um Borgarfjörð, Mýrar og vestur á Snæfellsnes í allmörg ár.
Í Skessuhorni sem kom út í dag er rætt stuttlega við Óla og Elísabetu konu hans og birtar myndir úr yfirstandandi hestaferð um Mýrar og Löngufjörur.