Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. júlí. 2010 10:57

Reykholtshátíð hafin

Fjórtánda Reykholtshátíðin hófst í gærkveldi en henni lýkur á sunnudaginn. Þetta er jafnframt í síðasta sinn sem Steinunn Birna Ragnarsdóttir listrænn stjórnandi og stofnandi hátíðarinnar mun sjá um hana að svo stöddu, en hún var nýlega ráðin tónlistarstjóri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu í Reykjavík. Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari mun taka við af Steinunni Birnu sem stjórnandi hátíðarinnar, “Ég kveð hátíðina með trega og söknuði en ef Auði vantar píanóleikara verður mér kannski boðið að spila sem gestur. Ég hlakka þó til að hefja störf sem tónlistarstjóri Hörpu og þetta hús er gríðarlega þýðingarmikið fyrir tónlistarmenn og tónlistarlífið á Íslandi. Það er mikið og gott tækifæri að fá að taka þátt í að byggja það upp og móta hefðir. Ég hlakka mikið til að takast á við tónlistarstjórastarfið,” sagði Steinunn Birna í samtali við Skessuhorn fyrr í vikunni. 

Tilhlökkunarefni á hverju sumri

“Það er rosalegt púsl að halda utan um svona hátíð. Stundum eins og að halda 25 boltum á lofti og enginn má detta í gólfið. Mér finnst þetta þó alltaf jafn spennandi og það er gaman að sjá þetta ganga upp. Það gerir það alltaf að lokum” sagði Steinunn Birna. “Upphafið af hátíðinni má rekja til þess tíma er ég bjó á Spáni og tók þátt í tónlistarhátíðum þar. Þegar ég kom heim vildi ég koma þessari hefð á fót hér á landi og fannst ákjósanlegt að hafa hátíðina í Borgarfirði þar sem ég er ættuð þaðan. Aðstaðan í Reykholti er líka frábær og ég hef átt gott samstarf við heimamenn og nærsveitunga. Reykholtshátíð stendur mér mjög nærri. Hún byrjaði sem góð hugmynd en hefur síðan farið fram úr björtustu vonum. Það ferli hefur verið mér persónulega mjög dýrmætt. Það er búið að vera mikil vinna að halda utan um þessa hátíð en hún hefur jafnframt verið mér mikið tilhlökkunarefni á hverju sumri,” segir Steinunn Birna.

 

Mikil dagskrá

Karlakór St. Basil-dómkirkjunnar í Moskvu syngur á hátíðinni og er þetta í fjórða sinn sem kórinn mætir á hana. "Hann hefur alltaf verið mjög vinsæll. Auðvitað er mun kostnaðarsamara að fá erlenda kóra til landsins í dag heldur en fyrir árið 2008 en Basilkórinn kom til að mynda ekki í fyrra. Það var sannkallað grettistak að fá þá til landsins í ár, en allur ferðakostnaður hefur tvöfaldast frá því þeir komu fyrst. Þeir segja Reykholt vera sinn uppáhaldsstað að syngja á sem telst mikið hrós ef maður hugsar aðeins um kirkjurnar í Rússlandi. Þessir menn eru góðu vanir. Þess má geta að það hefur alltaf verið uppselt á tónleikana þeirra þegar þeir koma til landsins en með hverri heimsókn eignast þeir fleiri aðdáendur. Það er slegist um miðana og mörgum þarf frá að vísa,” sagði Steinunn Birna.

 

Basilkórinn opnaði hátíðina í gær en kórinn verður alls með þrenna tónleika í Reykholti. "Á laugardeginum munum við Þóra Einarsdóttir sópran flytja frábær lög eftir Schubert og Duparc. Ljóðin eftir Duparc eru sjaldan sungin og mjög krefjandi í flutningi og ótrúlega falleg. Á laugardagskvöldið munum við Auður Hafsteinsdóttir og Bryndís Halla Gylfadóttir svo leika verk eftir Beethoven, Schostkovich, Piazzolla og Gliére en saman heitum við Reykholtstríóið og höfum allar spilað á Reykholtshátíðinni frá upphafi. Þeir tónleikar eru tileinkaðir minningu Gylfa Baldurssonar föður Bryndísar Höllu sem lést fyrir nokkrum dögum. Á lokatónleikunum fáum við síðan sérstakan gest, Ástríði Öldu Sigurðardóttur píanóleikara, en hún er einmitt Borgfirðingur og spilar nú á hátíðinni í fyrsta sinn. Hún er frábær tónlistarmaður af yngri kynslóðinni og mun, ásamt fleirum, spila hinn þekkta píanókvintett eftir Robert Schumann sem hefði orðið 200 ára í ár, ef hann hefði tekið lýsið sitt,” sagði Steinunn Birna að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is