23. júlí. 2010 01:01
Þriðja sumarið er nú haldin myndlistarsýningin Dalir og Hólar við innanverðan Breiðafjörð en núna ber sýningin undirtitilinn „Ferðateikningar.“ Sýningin verður dagana 24. júlí til 8. ágúst á fjórum stöðum við innanverðan Breiðafjörð; í Ólafsdal, í gamla kaupfélaginu á Króksfjarðarnesi og að Nýp og Röðli á Skarðsströnd. Sjö listamenn eiga verk á sýningunni og eru tveir þeirra í sýningarstjórn: Kristinn G. Harðarson og Helgi Þorgils Friðjónsson auk Þóru Sigurðardóttur. Að sögn Þóru Sigurðardóttur talsmanns listahópsins kallast sýningin núna á sýningarnar Dalir og Hólar 2008 og 2009 að því leyti að hún hefur að markmiði að taka þátt í mannlífi svæðisins, efna til samstarfs við heimamenn og leiða sýningargesti í ferðalag um þetta fjölbreytta og fallega svæði. Jafnframt laði sýningin fram ákveðna alþjóðlega hefð innan myndlistarinnar.
Þóra segir að það sem listamennirnir sýni megi kalla ferðateikningar; teikningar sem skrásetja eða segja frá ferðalagi á einhvern hátt - hugleiðing, hugmynd eða raunveruleg ferð.
„Grundvöllur sýningarinnar er þannig í anda ákveðinnar hefðar sem listamenn eins og Collingwood og Ásgrímur Jónsson voru hluti af svo dæmi sé tekið, en báðir gerðu þeir teikningar á ferðum sínum um landið. Við Breiðafjörð og í Dölum hafa margir listamenn sögunnar og samtíðarinnar slitið bernskuskóm eða unnið lífsverk sitt. Svæðið býr yfir fjölskrúðugri náttúru, fjölbreyttu dýralífi, menningu og sögu, sem enn er ótæmandi uppspretta nýrra verka og nýsköpunar í listum,“ segir Þóra en auk fyrrtalinna listamanna taka þátt í sýningunni Dalir og Hólar: Anna Guðjónsdóttir f. 1958, Anne Thorseth f. 1952, Dagbjört Drífa Thorlacius f. 1980, Kristín Rúnarsdóttir f. 1984 og Þorri Hringsson f. 1966.
Sýningin er styrkt af Menningarráði Vesturlands, Menningarráði Vestfjarða, Nýpurhyrnu, Ólafsdalsfélaginu, Kulturkontakt Nord og Statens Kunstråd í Danmörku.