23. júlí. 2010 08:01
Þrjár húseignir í Borgarnesi sem voru í eigu Sólorku ehf. voru seldar á uppboði síðasta miðvikudag. Þessar eignir eru veitingastaðurinn Vinakaffi, sem stendur í brekkunni neðan við vatnstankinn í Bjargslandi í Borgarnesi, gamla mjólkursamlagshúsið og íbúðir í því auk gamla Grímshúss sem stendur við höfnina í Brákarey. Borgarbyggð keypti Grímshúsið fyrir 700 þúsund krónur eða sömu upphæð og áhvílandi skuld á því var. Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín íbúðir sem innréttaðar voru í gamla mjólkursamlaginu. Pétur Geirsson átti hæsta boð í samkomusal hússins. Hæsta boð í Vinakaffi átti Arilíus Sigurðsson bílasali, eða 14 milljónir króna. Aðspurður segist Arilíus ekki vita enn hvað hann geri við húsið, en það sé í ágætu ásigkomulagi og fullbúinn veitingastaður með öllu tilheyrandi. “Ég á svona eftir að ákveða það með mínu fólki hvað ég geri við þessa eign, en að sjálfsögðu eru allar góðar hugmyndir vel þegnar, hvort sem menn hafa áhuga á leigu eða kaupum,” sagði Arilíus.