23. júlí. 2010 01:52
Árbók Akurnesinga 2010 kemur út í dag. Er þetta jafnframt í tíunda skipti sem árbókin kemur út. “Ég er mjög ánægður með þennan árangur,” sagði Kristján Kristjánsson ritstjóri. “Þegar við hjónin byrjuðum á þessu fyrir einum áratug síðan vissum við ekki hversu lengi þetta gæti gengið. Skagamenn hafa hins vegar tekið bókinni opnum örmum,” sagði Kristján. Í ritstjóragrein bókarinnar skrifar hann meðal annars: “Á hátt í 2500 síðum [síðustu tíu árganga] er að finna tugi viðtala og greina eftir um 60 höfunda, um 3000 ljósmyndir, að ógleymdum æviágripum ríflega 400 Akurnesinga. Og fjölbreytileikinn er mikill, greinarnar og viðtölin spanna allt litróf mannlífsins á Skaga.”
Helsta nýjungin í ár er að bókin er innbundin og harðspjalda. Þetta er í fyrsta skipti sem svo er og verður áfram næstkomandi ár, að sögn Kristjáns. Ef hægt væri að tala um eitthvað þema að þessu sinni segir Kristján það vera íþróttir. “Við fengum efni frá Haraldi Sturlaugssyni og Friðþjófi Helgasyni sem stóðu að sýningunni Íþróttir í 100 ár í Stjórnsýsluhúsinu. Þar að auki er þetta hefðbundna efni; annálar sem unnir eru úr fréttum Skessuhorns, æviágrip, viðtöl og greinar.”
Formlegur útgáfudagur bókarinnar er eins og áður sagði í dag og verður henni þá dreift til áskrifenda. Þá verður bókin einnig til sölu í bókabúðinni Eymundsson á Akranesi. Að tilefni tíu ára útgáfuafmælinu ætlar Kristján að hóa í alla þá sem komið hafa að útgáfunni þessi tíu ár og bjóða upp á kaffi og kleinur í sýningarsalnum í Stjórnsýsluhúsinu. Það verður kl. 16 í dag og eru allir aðstandendur árbókarinnar velkomnir.