23. júlí. 2010 10:26
ÍA sigraði í kvöld Fjarðabyggð þegar liðin áttust við í 1. deild karla í fótbolta á Akranesvelli. Í fyrri hálfleik léku Skagamenn ágætlega. Eftir rúmlega hálfrar klukkustundar leik skoraði Arnar Már Guðjónsson fyrsta mark heimamanna úr víti. Stuttu síðar bætti Hjörtur Júlíus Hjartarson öðru marki við og einungis tveimur mínútum eftir það var Stefán Arnar á ferðinni og setti þriðja mark heimamanna á einungis átta mínútna kafla. Ragnar Leósson bætti enn stöðu Skagamanna þegar hann setti boltann í netið þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og staðan 4:0. Eftir þetta mark var sem allur vindur væri úr heimamönnum. Það nýttu austanmenn sér. Á 58. mínútu skoraði Hákon Þór Sófusson fyrsta mark gestanna og á þeirri 70. var Aron Már Smárason á ferðinni og staðan orðin 4:2. Hjörtur Júlíus var næstur því að bæta fimmta marki Skagamanna við á 65. mínútu þegar hann vippaði boltanum rétt yfir þverslána. Þrátt fyrir nokkur tækifæri náðu austanmenn ekki að skora fleiri mörk, en nálægt voru þeir nokkrum sinnum að gera slíkt. Engu að síður var seinni hálfleikur bragðdaufur.