25. júlí. 2010 12:50
Kosið var á ný til sveitarstjórnar Reykhólahrepps í gær, en kosningarnar 29. maí sl. voru úrskurðaðar ógildar. Á vef Reykhólahrepps er greint frá úrslitunum. Aðalmenn í nýrri hreppsnefnd til fjögurra ára samkvæmt kosningunum nú eru: Andrea Björnsdóttir (106 atkvæði), Eiríkur Kristjánsson (103 atkvæði), Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir (95 atkvæði), Sveinn Ragnarsson (82 atkvæði) og Gústaf Jökull Ólafsson (72 atkvæði). Þau hlutu einnig öll kosningu í sveitarstjórn þegar kosið var 29. maí. Varamenn voru kosnir: Eggert Ólafsson, Björn Samúelsson, Vilberg Þráinsson, Áslaug Guttormsdóttir og Guðrún Guðmundsdóttir.
Alls fengu 46 einstaklingar atkvæði í sæti aðalmanna. Á kjörskrá voru 208. Á kjörstað kusu 110 en atkvæði utan kjörfundar voru 24. Auðir seðlar voru þrír og engin ágreiningsatkvæði. Kjörsókn var 64,4% sem er lítið eitt meira en í kosningunum í maí og í kosningunum fyrir fjórum árum, en þá var kjörsóknin í báðum tilvikum 62%. Af þeim sem atkvæði greiddu voru 64 karlar og 70 konur.