29. júlí. 2010 04:02
Lögreglan í Borgarnesi hefur í nógu að snúast varðandi umferðargæslu á svæðinu. Unglingalandsmót UMFÍ er haldið í Borgarnesi um helgina og fólk er farið að streyma í bæinn. Margir voru komnir á tjaldstæðin í gær en mótið hófst kl. 13 í dag. Í dag er aðeins keppt í körfubolta en á sjötta hundrað keppendur eru skráðir í hann. Keppni hefst svo í hinum ýmsu greinum snemma í fyrramálið svo búist er við að straumurinn í bæinn verði stöðugur í dag og í kvöld. Hingað til hefur allt gengið vel, allir eru glaðir og bæjarbúar hafa meira að segja tekið höndum saman og skreytt götur sínar. Þjóðvegur eitt liggur um Borgarnes og margir landsmenn á faraldsfæti um helgina. Mikil umferð er því í gegnum bæinn og þarf lögregla að koma í veg fyrir að umferð teppist auk þess að sinna lögbundinni löggæslu varðandi hraðakstur og fíkniefnaakstur.