05. ágúst. 2010 04:45
Alls komu um 200 verkefni til kasta lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum í vikunni sem leið. Átta fíkniefnamál komu upp í vikunni en lagt var hald á tæplega hálft kíló af fíkniefnum, mest af kannabisefnum en einnig fannst lítilræði af amfetamíni. Tekið skal fram að þessi mál tengdust ekki landsmótsgestum á neinn hátt, heldur var hér um að ræða fólk á leið í gegnum umdæmið. Átta ökumenn voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir að aka undir áhrifum lyfja. Sama á við um þessa aðila, þeir voru einnig á leið í gegnum umdæmið. Einn var grunaður um ölvun við akstur en sá er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, þannig að enginn var tekinn einungis ölvaður við akstur. Er það nokkur nýlunda en á árum áður voru yfirleitt teknir um 15 til 20 ökumenn fyrir ölvun við akstur um hverja verslunarmannahelgi. Alls voru um 30 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, sá sem hraðast ók af þeim var á 136 km/klst. þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Akstur fimm ökumanna var stöðvaður þar sem ökuréttindi þeirra reyndust ekki vera í lagi. Tilkynnt var um 14 umferðaróhöpp á tímabilinu 27. júlí til 5. ágúst. Flest voru þau minniháttar en slys urðu á fólki í þremur þeirra.