06. ágúst. 2010 10:06
Íslandsmóti unglinga í holukeppni lauk síðdegis í gær á Hólmsvelli í Leiru í Reykjanesbæ. Leikið var í þremur aldursflokkum hjá báðum kynjum og tryggði Bjarki Pétursson úr Golfklúbbi Borgarness sér sinn annan Íslandsmeistaratitil í sumar í drengjaflokki 15-16 ára. Fyrr í sumar varð Bjarki Íslandsmeistari í höggleik. Í öðru sæti í flokki drengja varð Pétur Aron Sigurðsson úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi og hrepptu því Vestlendingar tvö efstu sætin í þeim flokki. Þess má geta að bróðir Péturs, Magnús Björn Sigurðsson, keppti einnig til úrslita í flokki pilta 17-18 ára og hafnaði í fjórða sæti. Magnús Björn spilar fyrir Golfklúbb Reykjavíkur.