10. ágúst. 2010 08:01
Umferðin um síðustu verslunarmannahelgi var nærri sjö prósentum meiri en síðustu helgina í júlí í ár og rúmum þremur prósentum meiri en um verslunarmannahelgina í fyrra samkvæmt frétt frá Vegagerðinni. Umferðin um verslunarmannahelgina reyndist þó ekki sú mesta í sumar því meiri umferð var á sex talningarstöðum í nágrenni höfuðborgarinnar helgina 16. - 18. júlí. Sé tekið tillit til mánudagsumferðar og sú fjögurra daga helgi borin saman við sömu helgi árið 2009, verður útkoman meðal annars sú að 14,9% aukning var um Vesturlandsveg miðað við sömu helgi árið 2009. Aukningu um Vesturlandsveg telur Vegagerðin að megi fyrst og fremst rekja til Unglingalandsmóts UMFÍ í Borgarnesi. Í fyrra var það haldið á Sauðárkróki og mætti því í fyrstu ætla að um svipaða umferð yrði um að ræða nú í ár. En þá ber að líta til nálægðar Borgarness við höfuðborgarsvæðið og ljóst þykir að margir íbúar þess hafa valið að keyra á milli höfuðborgarinnar og Borgarness alla dagana í stað þess að gista yfir nótt, af því leiðir þessi mikla aukning nú.