10. ágúst. 2010 09:01
Ný afréttarnefnd Þverárréttar í Borgarfirði kom saman til fyrsta fundar síns 21. júlí síðastliðinn. Þar var samþykkt að leggja til breytingar á leitum til Þverárréttar og flýta þeim þannig að réttardagur fyrstu Þverárréttar færist fram um einn dag og verði því á sunnudegi. Samkvæmt tillögu nefndarinnar verða leitir og réttir miðaðar við vikutal sumars þannig að fyrsta leit fari fram föstudag og laugardag og fyrsta Þverárrétt sunnudag í 21. viku sumars. Samkvæmt því yrði hún sunnudaginn 12. september í haust. Að sögn Kristján F Axelssonar formanns afréttarnefndarinnar eru einkum þrjár ástæður fyrir að þetta er lagt til: “Í fyrsta lagi yrði það mjög seint að rétta fyrst 20. september í haust eins og núgildandi reglur segja. Í öðru lagi erum við að hugsa um fjárhag sauðfjárbænda. Sláturleyfishafar greiða hærra fyrir kjöt sem lagt inn í upphafi sláturtíðar í vikum 36 og 37. Með því að rétta á sunnudegi værum við því að bæta einum sláturdegi við í viku 37 þegar kjötverð er hæst.
Loks er sú hugsun að smala samhliða leitum á Arnarvatnsheiði. Nú er búið að leggja niður sauðfjárveikivarnargirðingu sem skilur að þessi upprekstrarhólf og því er mikið hagræði af að smala beggja vegna girðingar á sama tíma,” sagði Kristján.
Hann ítrekar að tillaga afréttarnefndar Þverárréttar er ekki formlega samþykkt fyrr en Fjallskilanefnd Borgarbyggðar hefur staðfest hana [eða synjað] og hann viti ekki hvenær hún verður kölluð saman. Loks minnir Kristján á að afréttarnefnd Þverárréttar hefur boðað sauðfjárbændur til fundar í Þinghamri fimmtudaginn 12. ágúst klukkan 21 þar sem ræða á fjallskilamál.
Ekki eru allir bændur á upprekstrarsvæði Þverárréttar samþykkir tillögu afréttarnefndar og finnst hún meðal annars seint fram komin miðað við göngur og réttir nú í haust. Hafa þeir skrifað byggðarráði Borgarbyggðar bréf með athugasemdum sínum. Því bréfi var vísað til afreiðslu fjallskilanefndar.