13. ágúst. 2010 04:01
Forseti Alþingis hefur ákveðið að höfðu samráði við stjórnlaganefnd og dómsmála- og mannréttindaráðherra að kjördagur til stjórnlagaþings verði laugardaginn 27. nóvember nk. Hlutverk stjórnlagaþings er að endurskoða stjórnarskrá Íslands. Stjórnlagaþingið skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum fulltrúa sem kosnir skulu persónukosningu og er landið eitt kjördæmi við þessa kosningu. Framboðsfrestur fyrir stjórnlagaþingskosningar rennur út 18. október 2010.
Þjóðfundur í nóvember
Stjórnlaganefndin sem Alþingi kaus í sumar hefur ákveðið að þjóðfundur um stjórnarskrá verði haldinn fyrr í sama mánuði, þ.e helgina 6.-7. nóvember. Fundurinn verður skipaður þúsund fulltrúum, völdum með slembiúrtaki úr þjóðskrá þar sem gætt er að eðlilegri skiptingu þátttakenda af landinu öllu og að kynjaskipting verði sem jöfnust. Á þjóðfundinum verður kallað eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni. Fundurinn er undanfari stjórnlagaþings. Á stjórnlaganefnd að vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman í febrúar 2011.