16. ágúst. 2010 10:19
Ástralska jazz- og blússveitin The Snappers heldur tónleika á Akranesi í lok mánaðarins. Mun sveitin, sem er sextett, leika á Gamla kaupfélaginu laugardaginn 28. ágúst og hefjast tónleikarnir kl. 22. Sveitin var stofnuð árið 2006 og er skipuð úrvalshljóðfæraleikurum og fremstur meðal jafningja og þekktastur þeirra er án efa Ben Gillespie sem jafnframt er aðalsöngvari sveitarinnar. Meðlimir hennar hafa um langt árabil leikið á tónlistarhátíðum víða um heim. Á tónleikum kemur sveitin einatt víða við í straumum og stefnum jazz og blúsheimsins allt frá fjórða áratug síðustu aldar til dagsins í dag. Er koma hennar því án efa talsverður hvalreki á fjörur jazz- og blúsunnenda.
Halldór Jónsson, einn þeirra sem stendur að komu sveitarinnar til Akraness, segir tvo í sveitinni hafa haldið hér tónleika fyrir tveimur árum með hljómsveitinni The Hoodangers. „Þeir tónleikar voru magnaðir en reyndar frekar fámennir. Samt kom ekkert annað til greina hjá Gillespie og félögum en að halda hér aftur tónleika enda skemmtu þeir sér afar vel hér. Hér er rótgróinn blús- og jassáhugi og nýstofnaður klúbbur áhugamanna þannig að ég veit að unnendur góðrar tónlistar munu ekki láta hljómleikana framhjá sér fara,“ segir Halldór.