17. ágúst. 2010 11:38
Móðir ungrar konu á Akranesi varar fólk við því að skilja bílana sína eftir ólæsta eftir að dóttir hennar lenti í því óláni að rænt var úr bílnum hennar. “Hún læsti ekki bílnum sínum á meðan hún skaust inn í kirkju í örstutta stund. Þetta gerðist um miðjan dag og það voru meira að segja menn að vinna í kirkjunni á meðan á ráninu stóð,” sagði móðir stúlkunnar í samtali við Skessuhorn. Veski var stolið úr bílnum en í því voru meðal annars 25 þúsund krónur í umslagi. Mikið var um þjófnaði á Akranesi í vikunni sem leið. Farið var inn í tvær bifreiðar og lausamunum stolið úr þeim og þá var nokkrum reiðhjólum einnig stolið. Einn var handtekinn þegar hann reyndi að selja stolna kerru og brotist var inn í bílskúr við heimahús og þaðan stolið reiðhjóli og háþrýstidælu.