18. ágúst. 2010 03:07
„Ég sótti um fyrir rælni þegar auglýst var eftir sumarmanni með Sigurði Guðjónssyni við Bifreiðaeftirlit ríkisins hér á Akranesi sumarið 1967 og var ráðinn. Síðan var ég beðinn um að vera áfram um haustið og fékk svo fastráðningu árið eftir,” segir Guðmundur Sigurðsson sem var bifreiðaeftirlitsmaður og prófdómari á ökuprófunum hátt í fjóra áratugi. „Geir Bachman í Borgarnesi var umdæmisfulltrúi Bifreiðaeftirlits ríkisins fyrir Vesturland og við heyrðum undir hann. Þegar Geir hætti svo seinna tók ég við af honum sem umdæmisfulltrúi. Við skoðuðum bíla á Akranesi, í Borgarfirði, á Snæfellsnesi, í Dölum og allt norður á Strandir. Þetta voru skemmtileg ár og mikil ferðalög. Aðstaðan til að skoða bíla var nú hvergi beisin þá og eina sem við höfðum var hjólatjakkur. Bílarnir voru skoðaðir utan dyra, bara á mölinni og í hvaða veðri sem var.
Við vorum með skrifstofu í Skökkinni við Akratorgið en þar hafði Bergur Arinbjörnsson verið áður sem umdæmisfulltrúi Bifreiðaeftirlitsins og síðan með Sjóvá og bílaumboð. Síðan færðum við okkur upp í gömlu mjólkurstöðina og höfðum ágætis aðstöðu þar þótt áfram væri skoðað utan dyra. Við vorum tveir í þessu við Siggi framan af og svo voru menn úr Borgarnesi og Stykkishólmi með mér.”
Sjá ítarlegt viðtal við Guðmund í Skessuhorni sem kom út í dag.