20. ágúst. 2010 02:02
í kvöld, föstudaginn 20. ágúst, heldur karlakór Leirvíkur tónleika í Reykholtskirkju. Hefjast þeir klukkan 19:30. Kórinn var stofnaður árið 1914 á eyjunni Leirvík við vesturströnd Noregs. Hann er nú með stærstu kórum á Hörðalandi. Kórinn syngur bæði veraldleg og kirkjuleg verk. Stjórnandi hans er Roald Sangolt, Irene Simonsen leikur á píanó og einsöngvari er Oddvar Rommetveit. Í Reykholti syngur kórinn m.a. verk eftir Edvard Grieg, Inga T. Lárusson, Franz Schubert, Charles Gounod, þjóðlög frá Úkraínu og Svíþjóð og ýmis verk eftri norsk tónskáld.
Spunaveit níu radda
Sunnudaginn 22. ágúst klukkan 20 mun spunahljómsveitin IKI halda tónleika í kirkjunni. IKI er spunahljómsveit níu söngkvenna frá fjórum Norðurlöndum; Íslandi, Finnlandi, Noregi og Danmörku. Hljómsveitin var stofnuð síðasta haust í Kaupmannahöfn þar sem allar níu söngkonurnar voru við nám í Rytmisk Musik Konservatorium og áttu það sameiginlegt að fara ótroðnar slóðir í tónlist og tónlistarsköpun. IKI sækir innblástur í nútíma jass, klassíska tónlist, popp, þóðlagatónlist o.fl. Sönghljómsveitin vinnur með fallegar laglínur, hljóð, hljóma, tungumál og takt – einungis með því að nota röddina. Öll tónlist er búin til á staðnum, verður til í augnablikinu. “Þegar IKI syngur má vel heyra djúpar skandinavískar rætur söngkvennanna og kvenleika þeirra. Í sumum lögum notar IKI texta og eru öll fjögur tungumálin notuð. Oft verða til skemmtilegar sögur á staðnum á öllum fjórum tungumálunum. IKI lagar sig að umhverfinu hverju sinni og tekur inn áhrif frá hverjum stað sem sungið er á. IKI skapar þannig tónlist í núinu og getur allt gerst,” segir í kynningu. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir