22. ágúst. 2010 01:00
Tímabili makrílveiða fer brátt að ljúka og halda skipverjar á Helga SH og Hring SH, skipum GRun í Grundarfirði, brátt í síðasta túr sumarsins. Þau hafa veitt á svokölluðu tvílembingstrolli, en að sögn Runólfs Guðmundssonar útgerðarmanns hafa veiðarnar gengið eins og björtustu vonir sögðu til um. „Veiðarnar hafa gengið mjög vel og við höfum nú veitt 500 tonn af makríl. Þetta er þróunarvinna og höfum við aðallega verið að safna að okkur reynslu og þekkingu. Við vildum taka þátt í veiðum á þessum nýja stofni en við horfum til framtíðar og vonumst til að geta nýtt þessa þekkingu áfram. Fyrst um sinn erum við ekki að græða mikið á veiðunum því mikill kostnaður fór í kaup á tækjum og veiðarfærum. Við erum einnig að kynnast markaðnum, sjá hverjir kaupa afurðirnar og hvar er hægt að selja þær. Þess má þó geta að allar okkar afurðir eru farnar núna. Við erum ekki með neinar birgðir og erum mjög ánægðir með það,“ sagði Runólfur að endingu.