23. ágúst. 2010 12:52
Skagamenn sigla lygnan sjó í 1. deildinni erfir 2:1 sigur gegn Njarðvíkingum suður frá sl. föstudagskvöld. ÍA er nú í 6. sæti deildarinnar með 25 stig mitt á milli toppliðanna í deildinni og þeirra í neðri hlutanum. Þrátt fyrir stigin þrjú í leiknum í Njarðvík var hann lítið fyrir augað og Skagaliðið oft spilað betur í sumar. Þeir gulklæddu byrjuðu með látum og strax eftir 30 sekúndna leik átti Gary Martin skot í stöng. Á 8. mínútu bætti Gary um betur þegar hann kom Skagamönnum yfir í leiknum með marki af stuttu færi eftir hornspyrnu. Martin var enn á ferðinni þegar hann breytti stöðunni í 2:0 á 25. mín. lagði þá boltann snyrtilega í netið eftir mistök í vörn heimamanna. Njarðvíkingar náðu síðan óvænt skömmu síðar að minnka muninn þegar Andri Fannar Freysson skoraði með skalla eftir aukaspyrnu.
Þetta mark sló Skagamenn út af laginu og voru þeir of mikið í langspyrnum. Síðari hálfleikurinn einkenndist mest af mikilli baráttu og féll ÍA liðið full mikið til baka. Heimamenn sóttu heldur meira en vörn Skagamanna hélt ágætlega. Páll Gísli í markinu þurfti þó að taka á honum stóra sínum þegar hann varði glæsilega skot af stuttu færi skömmu fyrir leikslok.
Fjórar umferðir eru nú eftir af 1. deildarkeppninni. Næst sækja Skagamenn Þróttara heim í Laugardalinn. Fer leikurinn fram nk. fimmtudagskvöld.