24. ágúst. 2010 11:01
Um síðustu helgi stóðu Samtök ungra bænda fyrir keppninni “Ungi bóndi ársins 2010.” Var hún haldinn í Skagafirði í tengslum við landbúnaðarsýninguna Sveitasælu. Til keppni mættu fjögur lið, eitt úr hverjum landshluta, þrír keppendur voru í hverju liði. Keppt var í þremur greinum; liðléttingafimi, girðingavinnu og kúadómum. Keppnin gekk gríðar vel og ekki annað að heyra á keppendum og áhorfendum að almenn ánægja hafi verið með hana. Vinningshafi liðakeppninnar var lið Norðurlands með þá Sigurð Pétursson frá Vindheimum, Sigurð Inga Einarsson frá Kúskerpi og Aðalstein Arason úr Varmahlíð innan borðs. Sýndu þeir frábæra takta í keppninni eins og skagfirskum piltum er einum lagið og voru vel að sigrinum komnir. Í öðru sæti var lið Austlendinga og lið Vestlendinga í þriðja sæti.
Í einstaklingskeppninni bar sigur úr bítum Sigurður Pétursson frá Vindheimum og hlaut hann til varðveislu Jötunn-Véla bikarinn, sem er farandverðlaunabikar sem sá hlýtur er vinnur keppnina ungi bóndi ársins ár hvert. Í öðru sæti var Höskuldur Kolbeinsson frá Stóra-Ási í Hálsasveit og þriðja sætið kom í hlut Sigurðar Inga Einarssonar frá Kúskerpi.