25. ágúst. 2010 02:34
Gunnar Sigurðsson fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Akraness lagði fram bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundi bæjarstjórnar sl. þriðjudag. Þar harma þeir að núverandi meirihluti skuli gera það að forgangsmáli að draga til baka margar af þeim aðhaldsaðgerðum sem bæjarstjórn Akraness samþykkti samhljóða að fara í fyrir og eftir hrun. Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins segir að bæjarsjóður Akraness standi mjög vel eins og síðasti ársreikningur sýni og einnig rekstraryfirlit fyrri hluta þess árs. Í ljósi aðstæðna megi ætla að næsta ár verði ekki eins gott, meðal annars vegna óvissu í atvinnumálum, auknum útgjöldum bæjarsjóðs og þá sé fyrirsjáanlegt að ekki komi arðgreiðslur frá Orkuveitu Reykjavíkur. „Í ljósi þessa teljum við undirritaðir að varfærnara hefði verið að taka aðhaldsaðgerðirnar til endurskoðunar um næstu áramót eins og fyrirhugað var,“ segja þeir Gunnar Sigurðsson og Einar Brandsson.