26. ágúst. 2010 01:01
Undanfarna daga hefur 20 manna hópur tékkneskra sveitarstjórnarmanna verið í heimsókn á Vesturlandi til að kynna sér vinnu sveitarfélaganna í fjórðungnum að umhverfismálum. Ferðin er að mestu leyti kostuð af þróunarsjóði EFTA, en fyrirtækið Environice í Borgarnesi undir stjórn Stefáns Gíslasonar hefur haft veg og vanda af skipulagningunni, í samvinnu við Vaxtarsamning Vesturlands og ráðgjafarstofuna MCN í Prag. Tékkarnir komu hingað til lands með flugi sl. föstudag og náðu háttum í Borgarnesi. Á laugardaginn ferðaðist hópurinn um Borgarfjarðarhérað og kynnti sér m.a. starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri undir leiðsögn Ragnars Frank Kristjánssonar forseta sveitarstjórnar Borgarbyggðar.
Bjarni Guðmundsson leiddi Tékkana í allan sannleika um Hvanneyri og starfið þar. Hann endaði sína kynningu í Landbúnaðarsafninu þar sem m.a. fyrir augu bar fyrstu dráttarvélina af Zetor-gerð sem flutt var hingað til lands. Einnig var farið í heimsókn í Andakílsárvirkjun, auk þess sem komið var við hjá Deildartunguhver, Hraunfossa, Húsafelli og endað í Reykholti þar sem séra Geir Waage tók á móti gestunum og fór á kostum í kynningu sinni um staðinn. Í Reykholti var snæddur kvöldverður að loknum erilsömum degi.
Á sunnudag lá leiðin vestur á Snæfellsnes, þar sem Erla Björk Örnólfsdóttir tók á móti gestunum, fylgdi þeim í eyjasiglingu í hryssingslegu veðri á Breiðafirði og vísaði þeim leið á Eldfjallasafnið í Stykkishólmi. Þaðan var svo haldið vestar á nesið, þar sem Tékkarnir kynntu sér rekstur Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, auk þess að heimsækja Djúpalónssand og fleiri áhugaverða staði innan marka þjóðgarðsins. Dagurinn endaði á kvöldverði í veitingastaðnum Gamla Rifi.
Fyrri hluta mánudagsins kynntu gestirnir sér lausnir Stykkishólmsbæjar í úrgangsmálum, heimsóttu Náttúrustofu Vesturlands og fræddust um Earth Check vottun Snæfellsness, svo eitthvað sé nefnt. Eftir hádegi lá leiðin síðan í Borgarnes á nýjan leik, þar sem dagskráin endaði með heimsókn í fólkvanginn í Einkunnum.
Á þriðjudagsmorgni heimsóttu Tékkarnir ráðhús Borgarbyggðar og hlýddu á fyrirlestur um rekstur sveitarfélaga á krepputímum og sitthvað fleira. Eftir það lá leiðin í grunnskólann, þar sem gestirnir kynntu sér umhverfisstarf undir merkjum grænfánans. Um hádegisbil var svo haldið áleiðis í Hvalfjörð. Þar var farið yfir sambúð sveitarfélags og stóriðjufyrirtækja, leikskólinn Skýjaborg heimsóttur og loks tekið hús á Arnheiði Hjörleifsdóttur ferðaþjónustubónda á Bjarteyjarsandi. Úr Hvalfirði lá leiðin um Þingvelli og þaðan til Reykjavíkur um kvöldið. Tékkarnir héldu síðan heim á leið í bítið á miðvikudagsmorgun.
Sjá nánar um heimsókn Tékkanna í Skessuhorni sem kom út í gær.