Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
30. ágúst. 2010 09:01

Talið hagkvæmt að sameina Vesturland í eitt sveitarfélag

Gert er ráð fyrir að tillögur um víðtæka sameiningu sveitarfélaga hér á landi líti dagsins ljós á þessu ári. Á stjórnarfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 3. febrúar á þessu ári var samþykkt tillaga þess efnis að sveitarfélögin tíu á Vesturlandi settu á laggirnar vinnuhóp til að fjalla um sameiningarmál og hugsanlega útfærslu sameiningar sveitarfélaga á Vesturlandi. Með því að hefja strax störf innan svæðisins leit stjórn SSV svo á að heimamenn gætu haft meira um málið að segja og stýrt þeirri vinnu sem unnin verður á Vesturlandi, fremur en að bíða átekta þar til boðun um sameiningu kæmi frá ríkisvaldinu. Í framhaldinu var erindi sent til sveitarfélaganna á Vesturlandi og þau beðin um að staðfesta þátttöku sína í verkefninu með því að tilnefna fulltrúa í starfshóp. Hópurinn óskaði eftir því að SSV-þróun og ráðgjöf inni úttekt á kostum og göllum þess að sameina öll sveitarfélögin á Vesturlandi í eitt.

Það sveitarfélag yrði fimmta stærsta sveitarfélag landsins. Að skýrslunni unnu Elías Árni Jónsson, Torfi Jóhannesson og Vífill Karlsson, starfsmenn SSV. Skýrslan er nú komin út og verður send sveitarfélögum á Vesturlandi til kynningar. Þá eru íbúar Vesturlands hvattir til að kynna sér skýrsluna, en hana má í heild finna á vef Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, www.ssv.is

 

Greiningarlíkan að norskri fyrirmynd

Skýrslunni er ætlað að leggja mat á fýsileika sameiningar allra sveitarfélaga á Vesturlandi sem á margan hátt eru afar ólík í dag. Tekjur, gjöld og skuldir eru mismunandi, landsstærð er afar ólík, aldurssamsetning íbúa mismunandi, þéttbýliskjarnar misjafnlega margir og þjónustuframboð ólíkt, svo tekin séu dæmi. Bættar samgöngur hafa þó leitt til þess að mesta vegalengd milli þéttbýlisstaða á Vesturlandi er um 160 kílómetrar og langflestir þjóðvegir bundnu föstu slitlagi.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að stuðst hafi verið við greiningarlíkan frá norska sveitarstjórnarráðuneytinu við vinnslu hennar, en það var þróað sérstaklega til greininga af þessu tagi. Greiningarlíkanið byggir á nokkrum meginþáttum þar sem breytingum á mörkum sveitarfélaga er ætlað að ná fram hagkvæmni. Þessir þættir eru í fyrsta lagi innri styrkur sveitarfélagsins til að vera leiðandi aðili í samfélaginu og til að bjóða íbúum upp á faglega og samkeppnishæfa þjónustu. Í öðru lagi árangursríkari svæðisþróun, sérstaklega með tilliti til skipulagsmála, samgöngumála og umhverfismála á samliggjandi svæðum. Í þriðja lagi virkni og þýðingu lýðræðis. Stærð og mörk sveitarfélaga þurfa að vera með þeim hætti að almenningur hafi með beinum hætti áhrif á lýðræðislega stjórnun síns samfélags. Sú þjónusta sem almenningur nýtur þarf að vera tengd þeirra lýðræðislegu áhrifum. Í fjórða lagi er það aðgengi. Tryggja þarf aðgengi allra íbúa að nauðsynlegri grunnþjónustu. Í fimmta lagi er horft til hagkvæmni, að leita beri allra leiða til að skipuleggja þjónustu sveitarfélaga með þeim hætti að sem mest hagkvæmni og samlegðaráhrif náist. Á grundvelli þessarar stefnumörkunar er í líkaninu lagt til að eftirfarandi þættir verið hafðir til hliðsjónar þegar stærð og mörk sveitarfélaga eru ákveðin: a) Áhrif á þjónustuframboð, svo sem fjárhagslegan styrkur, rekstrarhagkvæmni, ytri áhrif og svæðisbundin samþætting, fagmennska, breidd og dýpt þjónustuframboðs, aðgengi og réttaröryggi.

 

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Nýtt sveitarfélag myndi verða fimmta stærsta sveitarfélag landsins með um 15 þúsund íbúa og liggja í stærð milli Akureyrar og Reykjanesbæjar.
  • Allar líkur eru á að sameining sé rekstrarlega hagkvæm.
  • Sameinað sveitarfélag mun búa yfir meiri stöðugleika og eiga auðveldara með að mæta tímabundnum áföllum en sveitarfélögin í dag.
  • Allar líkur eru á að þjónustustig hækki og þjónustan verði faglegri.
  • Hluti íbúa mun þurfa að sækja ákveðna þjónustu um lengri veg en áður.
  • Svæðisþróun og áætlanagerð fyrir Vesturland mun verða einfaldari og væntanlega öflugri fyrir vikið.
  • Verkefnum í samstarfsnefndum, byggðasamlögum og þjónustusamningum myndi fækka mikið og þar með aukast bein lýðræðisleg áhrif íbúa.
  • Grípa þarf til sérstakra ráðstafana til að tryggja að flest svæði/byggðakjarnar innan Vesturlands eigi örugga fulltrúa í sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags. Einfaldast leiðin til þessa er umtalsverð fjölgun kjörinna fulltrúa.

 

Þá segja skýrsluhöfundar að sameiningin myndi hafa í för með sér heildarendurskoðun á fjölmörgum samstarfsverkefnum sveitarfélaga á Vesturlandi. Loks benda skýrsluhöfundar á að ofannefndar breytingar yrðu fyrirferðarminni hjá stærstu sveitarfélögunum en þeim minni og telja þeir einnig líklegt að hagurinn af sameiningunni yrði mestur hjá minnstu sveitarfélögunum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is