02. september. 2010 11:32
Kauphöll Íslands hefur sett skuldabréf gefin út af Jeratúni ehf., á athugunarlista. Jeratún er einkahlutafélag í eigu sveitarfélaganna Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar,
Snæfellsbæjar og Stykkishólmsbæjar um byggingu og rekstur skólahúss Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Bera sveitarfélögin ábyrgð á skuldbindingum Jeratúns. Kauphöllin setur þessi skuldabréf á athugunarlista með vísan til ábendingamálsgreinar í áritun endurskoðanda í uppgjöri sem birt var dags. 27. ágúst síðastliðinn. Fram kemur í árshlutareikningi að eigið fé félagsins var um mitt árið neikvætt um 46 milljónir króna þrátt fyrir 25 milljóna króna hlutafjáraukningu á tímabilinu. Tíu milljóna króna tap varð á rekstri félagsins á fyrri hluta ársins. Segir í umfjöllun endurskoðenda að sökum bágrar fjárhagsstöðu félagsins sé ljóst að nokkur óvissa sé um rekstrarhæfi félagins og ljóst að leigutekjur Jeratúns, sem greiddar eru af ríki og þeim sveitarfélögum sem standa að rekstri félagsins, standi ekki undir rekstri félagsins til að Jeratún geti staðið við skuldbindingar sínar.
Hér má sjá árshlutareikninginn í heild sinni.