Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. september. 2010 12:01

Fyrsti kynningarfundurinn um grænu tunnuna

Ekki var sérlega vel mætt á fyrsta fundinn um breitt fyrirkomulag sorphirðu á suðursvæði Vesturlands. Fundurinn var haldinn í Tónbergi á Akranesi í gær. Einungis mættu um 40 á fundinn en á fundarmönnum var að heyra að hann hefði verið mjög gagnlegur. Fram kom á fundinum að grænu tunnunni, fyrir endurvinnanlegan úrgang, verður komið til íbúðaeigenda á Akranesi um miðjan þennan mánuð og um leið verður dreift handbók með ítarlegum leiðbeiningum um flokkun sorps í tveggja tunnu kerfið sem nú er verið að taka upp í fjórum sveitarfélögum á Vesturlandi, auk Akraness, í Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð og Skorradalshreppi. Kynningarfundir verða haldnir á svæðunum utan Akraness á næstunni.

 

 

 

Sem kunnugt er tók Íslenska gámafélagið við sorphirðu á þessu svæði nú um mánaðamótin af Gámaþjónustu Vesturlands. Birgir Kristjánsson framkvæmdastjóri umhverfissviðs Íslenska gámafélagsins kynnti breytt sorphirðukerfi ásamt Þorvaldi Vestmann hjá Umhverfis- og skipulagsstofu Akraness. Birgir rakti kosti þess að flokka sorp og þeir væru margir, bæði umhverfisvænir og fjárhagslegir. Með grænu tunnunni og endurvinnanlega úrganginum væri bjargað frá glötun dýrmætu hráefni til endurvinnslu. Það sparaði síðan dýrmæt landssvæði og kostnað við urðun, en sá sparnaður er á bilinu 25-35%. Birgir segir endurvinnslu mjög hagkvæma, m.a. vegna þess að mun minni orka fari í endurvinnslu en frumvinnslu, t.d. fer einungis 5% í endurvinnslu áls miðað við frumvinnslu þess málms.

 

Eftirsótt hráefni

Þegar er farið að framleiða fjölbreytta og góða vöru úr plastúrgangi hér á landi, svo sem rör, vegstikur og girðingarstaura og úrvinnslu úr plasti fleytir fram. Fyrirtækið PM Endurvinnsla í Gufunesi er m.a. farið að vinna hráefni úr heyrúlluplasti sem flutt er út. Á síðasta ári flutti Íslenska gámafélagið út hráefni til endurvinnslu fyrir verulegar upphæðir, 6.200 tonn af pappír og pappa og 1.000 tonn af brotamálmi.

Á fundinum í gær var talsvert fjallað um hvort að flokkunin myndi ekki örugglega skila sér í endurvinnsluna, þetta færi ekki allt í sömu holuna á endanum eins og mun hafa gerst með sorp á Akranesi þegar það var flokkað fyrir nokkrum árum. Birgir fullvissaði fundarmenn um að svo yrði örugglega ekki, hagsmunirnir væru alltof miklir til að slíkt gæti gerst, enda væri eftirfylgni í gegnum svokallaðan úrvinnslusjóð. Endurvinnanlegur úrgangur væri eftirsótt hráefni, hann væri atvinnuskapandi og skapaði gjaldeyri.

 

Í máli þeirra Birgis og Þorvaldar kom fram að betra væri að fólk skipulagði í upphafi flokkunina í eldhúsinu. Festingar væri hægt að fá fyrir tunnurnar utan dyra sem ekki kostuðu mikla peninga og tunnuskýli væri auðvelt að smíða, þótt kostnaður fylgdi því. Birgir sagði að starfsmenn Íslenska gámafélagsins væru tilbúnir að liðsinna fólki til að byrja með og sjálfsagt væri fyrir fólk að hafa samband símleiðis eða í gegnum tölvupóst, þegar kæmi að því að fara að flokka sorpið.

 

Verðlaunað fyrirtæki

Við upphaf fundarins kynnti Birgir fyrirtækið. Hann sagði Íslenska gámafélagið hafa metnaðarfulla umhverfisstefnu, sem m.a. fælist í því að gera Gufunes, þar sem fyrirtækið er staðsett, að grænu umhverfisvænu endurvinnsluþorpi. Fyrirtækið fékk á síðasta ári Kuðunginn, verðlaun umhverfisráðuneytisins fyrir framlag til sorpflokkunar, og var valið fyrirtæki ársins í flokki minni fyrirtækja hjá VR. Allur bílakostur fyrirtækisins gengur fyrir metani, umhverfisvænni orku, og Birgir sagði á fundinum að félagið hefði fullan hug á því að útvíkka metanframleiðsluna, jafnvel koma upp stöð á Vesturlandi með tíð og tíma.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is