15. september. 2010 01:01
Brekkósprettur - skólahlaup Brekkubæjarskóla á Akranesi – var haldinn í morgun í fyrsta skipti, en hann tekur við af Norræna skólahlaupinu. Sem fyrr var fyrst og fremst hlaupið til skemmtunar og yndisauka en til að auka fjörið var einnig höfð smá keppni milli bekkja skólans. Hlaupið hófst klukkan 10 og náði hlaupaleiðin frá Brekkubæjarskóla út Vesturgötuna að Esjubraut og upp hana. Þá var hlaupin Kalmansbraut og Kirkjubraut að Merkigerði, niður hana á Vesturgötuna aftur og endað í skólanum. Einn hringur jafngildir 2,5 km og réðu nemendur hvort þeir hlupu einn, tvo, þrjá eða fjóra hringi. Hlaupið stóð í um klukkutíma og að því loknu létu krakkarnir umsjónarkennarann sinn vita hversu langt þeir hlupu. Sá bekkur sem hljóp lengst að meðaltali sigraði Brekkósprettinn.