16. september. 2010 02:01
„Meginverkefni nýrrar stjórnar verður að fylgja eftir þeim samningum sem í gildi eru og halda áfram því góða starfi sem unnið er að innan SSV, ekki síst hjá atvinnuráðgjöfinni og Markaðsstofu Vesturlands,“ segir Sveinn Kristinsson nýkjörinn formaður stjórnar SSV í samtali við Skessuhorn. Sveinn segir ljóst að engin stefnubreyting verði með nýrri stjórn samtakanna. Hann sagðist ekki ókunnugur starfsemi SSV, m.a. hafi hann átt sæti í atvinnumálanefnd samtakanna um árabil. Þá segist Sveinn þekkja mjög vel til á svæðinu, auk suðurhlutans, þar sem hann hafi verið búsettur langi, starfaði m.a. við kennslu á Laugum í Sælingsdal í fjóra vetur og í fimm vetur í Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi.
„Ég kynnti mér strax fyrsta veturinn í Dölunum bæjaskipan í héraðinu og vissi þar nöfn allra ábúenda. Svipað var svo uppi á teningnum þegar ég kenndi við Laugagerðisskóla, þannig að segja má að ég þekki ágætlega til vítt og breytt um Vesturland,“ segir Sveinn Kristinsson.