17. september. 2010 09:01
Karlalið Skallagríms í knattspyrnu hélt uppskeruhátíð sína í Mótel Venus sl. laugardagskvöld, en liðið lék í C-riðli 3. deildar í sumar og hafnaði þar í þriðja sæti. Veittar voru viðurkenningar fyrir frammistöðu einstakra leikmanna á uppskeruhátíðinni. Sölvi Gylfason var valinn besti leikmaður liðsins en hann skoraði einnig flest mörk Skallagríms í sumar. Mikilvægasti leikmaðurinn var að mati liðsfélaga sinna Eyþór Ólafur Frímannsson.
Efnilegasti leikmaðurinn var kjörinn Viggó Pétur Pétursson og sá sem sýndi bestu ástundina Dawid Dabrowsky. Garðar Jónsson þjálfaði meistaraflokk Skallagríms á liðnu tímabili og segir Kristmar Ólafsson formaður knattspyrnudeildar að vilji beggja aðila sé til að það samstarf haldi áfram, þar aðeins eftir að ganga formlega frá málum.
„Við erum mjög ánægðir með árangurinn í sumar og störf Garðars. Það var ekkert stefnan síðasta vor að fara upp þannig að liðið í sumar stóð fyllilega undir væntingum og spilaði að mínu mati skemmtilegan fótbolta. Væntanlega munum við setja markmið fyrir næsta tímabil í takt við getu félagsins uppeldislega, félagslega og peningalega. Ég held að starfið hjá okkur í fótboltanum sé á réttri leið, bæði hjá yngri flokkunum og meistaraflokknum,“ segir Kristmar Ólafsson.