24. september. 2010 10:01
Strandsiglingar, endurskoðun hafnalaga og fjármál hafna eru ofarlega á baugi á þingi Hafnasambands Íslands sem nú stendur yfir í Stykkishólmi. Fyrir þinginu liggja ályktanir um að skora á stjórnvöld að rétta fjárhagsstöðu hafna, endurskoða hafnalög og styrkja sóknarfæri við heimsóknir skemmtiferðaskipa. Í ályktunum sem lagðar eru fyrir þingið er bent á nauðsyn þess að endurskoða hafnalög, að komið verði til móts við ábendingar hafnanna um framkvæmd vigtunar á sjávarafla, að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra beiti sér fyrir því að unnar verði tillögur úr skýrslu nefndar um fjárhagsstöðu hafna sem verði til þess að rétt hlut þeirra og að fylgja beri eftir þeirri stefnumörkun að strandflutningar verði að nýju raunhæfur flutningsmáti.
Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði þingið í gær og gerði meðal annars fjármál hafna að umtalsefni. Vitnaði hann til skýrslu um fjárhagsstöðu hafna sem unnin var á síðasta ári sem hann sagði skýra og skilmerkilega. Ráðherra sagði brýnt að styrkja tekjugrundvöll hafna og dró fram þá ábendingu skýrslunnar að úrelda mætti ákveðnar hafnir en sagði það mjög viðkvæmt mál. Þá sagði hann að skoða mætti nýjar leiðir í samhengi við sameiningar sveitarfélaga. Þá vék hann að endurskoðun hafnalaga sem hann sagði nauðsynlega í ljósi nýrrar þróunar.
Um strandsiglingar sagði ráðherra að huga ætti vandlega að því að taka þær upp. Fagnaði hann þeirri afstöðu sem fram kom í ávarpi formanns Hafnasambandsins, Gísla Gíslasonar, að sambandið væri fylgjandi því að taka þær upp. Einnig sagði Ögmundur að Íslendingar væri siglingaþjóð og sagði áhugavert að kanna hvort ná mætti fyrri stöðu og skrá hér kaupskip á ný sem ekki hefur verið í nokkur ár. Það hefði verið reynt og málið rætt bæði á Alþingi og meðal sveitarfélaga og settar fram hugmyndir um skattaívilnanir til skipafélaga. Sagði hann algera forsendu slíkra ívilnana vera þá að skipafélögin myndu virða og viðurkenna lágmarkskjarasamninga.