24. september. 2010 12:09
Í gær voru umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar afhentar fyrir þetta ár. Veitt voru verðlaun í fjórum flokkum; fyrir myndarleg og snyrtileg býli í dreifbýli, snyrtilega lóð við íbúðarhús, snyrtilega lóð við atvinnuhúsnæði og sérstök umverfisviðurkenning. Ragnar Frank Kristjánsson formaður umhverfis- og skipulagsnefndar kynnti tilnefningar og veitti viðurkenningar. Í ávarpi sínu gat hann þess að fremur fáar tilnefningar hafi að þessu sinni borist miðað við síðari ár. Vitnaði hann meðal annars í Viktor Hugo sem sagði fyrir 140 árum að nýting húsa kæmi notendum einum við en fegurð þeirra og umhverfi kæmi öllum við. Sagði hann að á einstaka stað í sveitarfélaginu þyrfti að taka til hendinni og bæta umgengni, viðhald og umhverfi en víða væri snyrtimennska og umhverfismál í góðu lagi.
Arnbjargarlækur í Þverárhlíð var valið myndarlegasta og snyrtilegasta býlið, ferðaþjónustan í Fossatúni snyrtilegasta atvinnulóðin, Þórðargata 30 í Borgarnesi snyrtilegasta lóð í þéttbýli og loks fékk Halldór Einarsson starfsmaður gámasvæðisins í Borgarnesi sérstaka viðurkenningu.
Ítarlega verður fjallað um tilnefningar og umsögn dómnefndar í Skessuhorni í næstu viku.