24. september. 2010 03:32
Lögreglan í Borgarnesi var kölluð á vettvang í nótt vegna máls sem upp kom á Hvanneyri. Þar hafði maður um tvítugt ógnað þremur samnemendum sínum við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri með hnífi. Engan sakaði en maðurinn var enn í haldi lögreglunnar í Borganesi í dag þar sem yfirheyrslur fóru fram. Samkvæmt upplýsingum Theodórs Þórðarsonar yfirlögregluþjóns var þá ekki ljóst hvort þremenningarnir sem ógnað var myndu leggja fram kæru á samnemenda sinn. Engu að síður væri málinu ekki lokið af hálfu lögreglunnar.
Lögreglan fékk tilkynningu um kl. 2:30 í nótt að ölvaður maður vopnaður hnífi, væri annað hvort með þrjá í gíslingu eða að reyna að komast inn í herbergi þar sem þremenningarnir földu sig. Þeir voru í uppnámi þegar lögreglan kom að en þá var meintur umsátursmaður ekki á staðnum. Hann kom þó skömmu síðar en var þá búinn að losa sig við hnífinn. Maðurinn var handtekinn og við leit í herbergi hans fannst hnífur sem svaraði til þeirrar lýsingar sem fólkið gaf. Nemendum við LbhÍ var boðin áfallahjálp í kjölfar atviksins í nótt.