Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
19. nóvember. 2010 03:02

Stefán Þormar Vinur Akraness númer eitt

Í gær komu nokkrir Vinir Akraness, félagar í Litla klúbbnum og áhugamenn um knattspyrnu, saman í Litlu kaffistofunni rétt vestan Draugahlíðar við Hellisheiði. Þar tók á móti þeim Stefán Þormar Guðmundsson, eigandi veitingastaðarins og hans fólk. Tilefnið var að Vinir Akraness ætluðu að afhenda Stefáni Þormar viðurkenningu af sérstöku tagi og hafði Haraldur Sturlaugsson orð fyrir þeim félögum. Haraldur ávarpaði Stefán og aðra viðstadda og þakkaði stuðning Stefáns við Akranesliðið í blíðu og stríðu um áratugaskeið, allt frá barnæsku hans í Vík í Mýrdal.

Félagarnir voru sammála um að Stefán væri sá Íslendingur sem flesta kílómetrana hafi lagt að baki til þess að sýna Akranesliðinu stuðning í leikjum þess.

Er hann fór á fyrsta ÍA-leikinn 10 ára gamall, árið 1956, sá hann ÍA leggja Fram 2-0 á Melavellinum í Reykjavík. Þá tók rútuferðin frá Vík til Reykjavíkur aðra leið sjö klukkustundir og í þeim leik sá hann þrjá af þeim sem nú voru viðstaddir, leika fyrir ÍA, þá Guðjón Finnbogason, Helga Daníelsson og Ríkharð Jónsson. Margoft síðar fór hann þessa leið með föður sínum og stundum bræðrum til að ná á leiki ÍA.

 

Stefán starfaði sem bankamaður í Svíþjóð í átta mánuði 1974 og missti hann auðvitað af öllum leikjunum það sumarið. Hann náði hinsvegar bikarúrslitaleiknum um haustið sem ÍA tapaði gegn Val 4–0, honum til sárra vonbrigða.

 

Til að fylgjast með leikjunum sumarið 1974 fór hann alltaf á þriðjudögum með ferjunni frá Landskrona til Tuborg Havn í Kaupmannahöfn (2½ klst aðra leiðina) og það aftraði honum ekki að reglulega þurfti hann að yfirgefa konu sína og eins, tveggja, þriggja og fimm ára börn þeirra. Í Kaupmannahöfn fór hann á járnbrautarstöðina til þess að nálgast Moggann þar sem hann náði að lesa um leiki ÍA-liðsins. „Þetta skildu Svíarnir ekki og töldu mig eitthvað klikkaðan,” er haft eftir Stefáni.

 

Haraldur þakkaði tryggð Stefáns og sagði Akurnesinga kunna að meta slíka vináttu og færði hann Stefáni innrammað skjal í viðurkenningarskyni, þar sem Stefán hlaut, í nafni Litla klúbbsins, sæmdarheitið „Vinur Akraness númer 1, árið 2010“. 

Stefán þakkaði fyrir sig með stuttu ávarpi og taldi vissulega að gleðin og ánægjan hafi ætíð verið sín að fylgjast með ÍA-liðinu í áranna rás. Stefán sló á létta strengi og minnist þess að faðir hans hafi iðulega lesið fyrir þá bræðurna heima í Vík úr Brennu-Njáls sögu kl 3 síðdegis á sunnudögum í stað þess að leyfa þeim að fara á barnabíóssýningar. Taldi það duga myndi lengur en bíóefnið.

 

Í framhaldi af þessu sagði Stefán Þormar frá því að þegar hann vann í Búnaðarbankanum í Reykjavík hafi hann sóst eftir að sitja til borðs með KR-ingum í matarhléum því að við þá var hægt að deila af viti um knattspyrnu. Hann minntist þess að eitt sinn er gengi ÍA-liðsins var „svona heldur í slakara lagi“ hafi Svavar Markússon, langhlaupari úr KR, haft orð á því að Stefán Þormar þyrfti að fara að „hætta að styðja ÍA og fara að styðja – ja, til dæmis KR.“

 

„Ég minnti Svavar og aðra viðstadda á orð Bergþóru í Njáls sögu, þegar Flosi bauð henni að ganga úr brennunni og bjarga lífi sínu. Ung kvaðst hún hafa verið gefin Njáli og hafi hún heitið því að eitt skyldi yfir þau bæði ganga. Þannig verður þetta með mig og ÍA,“  sagði Stefán Þormar að lokum: „Eitt mun yfir okkur ganga, mig og ÍA-liðið. Við munum ekki skilja!”

hs

 

 

Á myndinni eru frá vinstri: Guðjón Guðmundsson, Pálmi Haraldsson, Einar Guðleifsson (aftast), Björn Ingi Finsen, Stefán Þormar Guðmundsson, Þröstur Stefánsson (aftast), Ríkharður Jónsson, Matthías Hallgrímsson (aftast), Haraldur Sturlaugsson, Sturlaugur Sturlaugsson (aftast), Kristján Sveinsson, Guðjón Finnbogason, Gísli Gíslason og Helgi Daníelsson lengst til hægri.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is