30. nóvember. 2010 10:36
Knattspyrnumaðurinn Þorsteinn Már Ragnarsson, sem leikið hefur með Víkingi Ólafsvík síðastliðin ár, hlaut nafnbótina íþróttamaður ársins 2010 í Grundarfirði síðasta sunnudag á aðventuskemmtun í Samkomuhúsinu. Tveir aðrir íþróttamenn voru tilnefndir; Hugrún Elísdóttir fyrir góðan árangur í golfi og Sunna Björk Skarphéðinsdóttir fyrir blak.
Þorsteinn Már var valinn efnilegasti leikmaður 2. deildar af fyrirliðum og þjálfurum í sumar og þá var hann næst markahæstur í deildinni með 18 mörk í 21 leik. Hann hefur undanfarið verið á æfingum með danska félaginu Vejle til reynslu og kemur fljótlega í ljós hvort hann verður keyptur þangað.