03. desember. 2010 08:01
Sunnudagana 5. og 12. desember klukkan 12:00 býður Landnámssetrið í Borgarnesi upp á uppáhaldsmat jólasveinanna á hlaðborði. Þetta er að sjálfssögðu þjóðlegur íslenskur matur; bjúgu með rauðkáli, grænum baunum og uppstúf (ekki Stúf), plokkfisk, steikt slátur með rófustöppu og kjötbollur með brúnni sósu og sultu. Í eftirrétt er svo skyr, grjónagrautur með möndlu og ROYAL súkkulaðibúðingur. Einhvern tímann á meðan á borðhaldi stendur má svo eiga von á glorhungruðum jólasveinum – beint ofan af Hafnarfjalli. Þeir reyna að krækja sér í bita og beita til þess ýmsum brögðum. En róast svo þegar þeir hafa fengið nægju sína og dansa með krökkunum í kringum jólatréð.
“Verð fyrir 4-12 ára er 1.200 kr, 13 ára og eldri greiða 2.500 kr. Frítt fyrir börn 0-3ja ára. Eftir að dansað hefur verið í kring um jólatréð verður sýning á "Pönnukökunni hennar Grýlu" í Brúðuheimum, verð á miða er 1.500 kr. Nauðsynlegt er panta í matinn og á sýninguna,” segir í tilkynningu frá Landnámssetrinu.