02. desember. 2010 02:59
Bílasala hefur undanfarnar vikur verið að aukast. „Salan á enn langt í land, en þetta er allt í áttina“, segir Magnús Óskarsson hjá bílasölunni Bílás á Akranesi. „Við trúum því að næsta ár verði betra og 2012 og 2013 fari svo allt af stað aftur. Kaupmunstrið mun þó örugglega breytast þegar ný vörugjöld taka gildi um áramótin. Þá fara allir í áttina að sparneytnum bílum. Við hjá Bílás kynnum einmitt einn slíkan um helgina en við höfum nú fengið landsins fyrst Kia Sportage bílinn sem er sparneytinn og öruggur sportjeppi og frumsýnum við hann á næstu dögum. Fyrsti bíllinn er reyndar seldur og afhendum við hann á laugardaginn.“
Nýr Sportage frá Kia hefur hlotið góða umsögn undanfarið, en bíllinn var kynntur síðla sumars. Eftirspurn hefur verið svo mikil að verksmiðja Kia í Slóvakíu hefur ríflega tvöfaldað afkastagetu sína og mun framleiða allt að 10.000 bíla á mánuði í stað 4.000.
Bíllinn fékk fullt hús stiga, 5 stjörnur, í árekstrarprófun hinnar virtu evrópsku öryggisstofnunar EuroNCAP. Sportage var metinn öruggasti bíllinn í sínum flokki. Þar með er Sportage kominn í félagsskap með öðrum gerðum Kia, eins og Soul, ceed, Venga og Sorento, sem allir hafa skarað fram úr í þessari ströngu öryggisprófun.
Kia Sportage náði 93 prósent árangri hvað varðar vernd fyrir fullorðna farþega, 86 prósent fyrir vernd fyrir unga farþega, 49 prósent fyrir gangandi vegfarendur og 86 prósent fyrir virkan öryggisbúnað. EuroNCAP sá einnig ástæðu til að hæla Kia sérstaklega fyrir að útbúa Sportage með rafeindastýrðri stöðugleikastýringu, (ESC), í staðalgerðum bílanna á flestum mörkuðum.